Alþjóðleg fjármálalæsisvika 14.-20. mars 2016

Fjölbreytt dagskrá í rúma viku vekur börn og ungmenni til vitundar um fjármál.

Stofnun um fjármálalæsi fer fyrir hópi stofnana og fyrirtækja sem standa fyrir ýmsum viðburðum í annarri viku marsmánaðar til að fagna alþjóðlegri fjármálalæsisviku 2016. Þetta er í þriðja sinn sem hátíðin er haldin á Íslandi en alls taka þátt yfir 100 lönd í öllum heimsálfum.

Alþjóðleg fjármálalæsisvika á Íslandi er hluti af alþjóðlegri vitundarvakningu sem ætlað er að vekja athygli á mikilvægi fjármálalæsismenntunar og stuðla að viðhorfsbreytingu þegar kemur að fjármálum. Hollenska góðgerðarhreyfingin Child and Youth Finance International stendur að átakinu á alþjóðavísu. Hreyfingin vinnur að eflingu fjármálalæsis og aðgengi barna og ungmenna að öruggri og barnvænni fjármálaþjónustu um heim allan. Hreyfingin nýtur stuðnings margra framámanna og stofnana á heimsvísu, þar á meðal OECD og aðalritara Sameinuðu þjóðanna, Ban-Ki Moon.

Í dag hefur innan við 1% allra barna í heiminum aðgang að fjármálalæsismenntun eða fjármálaþjónustu við sitt hæfi. Skortur á fjármálalæsi veldur því að ungt fólk lendir í vanda vegna skuldsetningar, sem hefur neikvæðar afleiðingar á þroska þess og velferð. Markmið fjármálalæsisvikunnar er að gera börnum og ungmennum grein fyrir mikilvægi fjárhagslegra réttinda sinna.

Að alþjóðlegri fjármálalæsisviku standa Fjármálaeftirlitið, Fjármálaráðuneytið, Meniga, NASDAQ OMX kauphöllin, Neytendastofa, RÚV, Samtök fjármálafyrirtækja, Seðlabanki Íslands, Stofnun um fjármálalæsi, Umboðsmaður skuldara og Viðskiptaráð.

Global Money Week

Lokað er á athugasemdir.